Þann 7. mars síðast liðinn var haldið Framtíðarþing um farsæla öldrun í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Þingið var samstarfsverkefni Öldrunarráðs Íslands, Landsambands eldri borgara, Öldrunarfræðafélags Íslands, Velferðarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, Fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga, Félags sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu og Iðjuþjálfafélags Íslands.Aðdragandi fundarins var Evrópuár um virkni aldraðra og samstöðu kynslóðanna árið 2012 hjá Evrópusambandinu en í kjölfarið var ákveðið að efna stefna til þingsins með eftirfarandi markmið að leiðarljósi:

  • Að vekja jákvæða athygli á öldruðum, stöðu þeirra og hvernig þeir líta sín mál til framtíðar.
  • Að skapa umræðu um öldrunarmál, væntingar og viðhorf til efri áranna.
  • Að skapa vettvang fyrir þá sem koma að öldrunarmálum á Íslandi og koma af stað heilbrigðri og skynsamlegri umræða um þessa kynslóð.
  • Að skapa leiðbeiningar til stjórnvalda.

Fundarfyrirkomulag byggði á sömu hugmyndafræði og notuð var á Þjóðfundi 2009 og 2010. Unnið var á sextán 8-9 manna borðum og á hverju borði var sérþjálfaður borðstjóri en hans hlutverk var að sjá til þess að allir við borðið fengju jöfn tækifæri til að tjá sig og að tryggja virka hlustun þannig að öll sjónarmið kæmust að. Þátttakendur voru 125 talsins og var þátttakendum í mismunandi aldurshópum og starfsfólki sem tengist öldrunarmálum blandað í hópa á hverju borði.

Miklar og stórskemmtilegar umræður voru á þinginu þar sem margt fróðlegt kom fram. Spurningarnar sem fundarmenn glímdu við voru eftirfarandi:

  • Hvað er það besta við að eldast?
  • Hvaða væntingar hefur samfélagið til aldraðra? / Hvaða væntingar hafa aldraðir til samfélagsins?
  • Hvað er farsæl öldrun?
  • Hvernig stuðlum við að farsælli öldrun?

Sjálfstæði og sjálfræði á jákvæðan og lifandi hátt - Stefnumótalína, umboðsmaður aldraðra og jafnvel stjórnmálaflokkur
Þegar litið er á niðurstöðurnar má segja að í grunninn þá vilja aldraðir – rétt eins og við öll - lifa hinu fullkomna lífi, búa við fjárhagslegt sjálfstæði og góða heilsu, hafa greiðan aðgang að góðri heilsugæslu og góðu og heppilegu húsnæði. Þeir vilja búa við sjálfræði og vera virkir þjóðfélagsþegnar, sem hlustað er á til jafn við aðra þjóðfélagshópa. Þeir vilja lifa lífinu lifandi með sínum nánustu og hafa tíma til tómstunda, sjálfsræktar og geta sinnt ýmsu sem setið hefur á hakanum. Þeir telja mikilvægt að yngri þjóðfélagshópar og samfélagskerfið í heild endurskoði viðhorf sín til aldraðra og tileinki sér jákvæðara viðmót í garð þeirra enda séu aldraðir að mörgu leyti dýrmæt en ónýtt auðlind.

Í niðurstöðunum koma einnig fram óskir um einstök atriði eins og stefnumótalínu fyrir 67 ára og eldri, að embætti umboðsmanns aldraðra verði sett á fót og vangaveltur um hvort aldraðir ættu að vera með eigin stjórnmálaflokk. Á einum stað segir að ræða þurfi oftar við aldraða í fréttum og fréttaþáttum hvort sem er í sjón- eða hljóðvarpi.

Nánari umfjöllun um Framtíðarþing um farsæla öldrun og  niðurstöður þess er að finna í meðfylgjandi skýrslu.

Dreifing, birting og notkun
Það er velkomið að dreifa skýrslunni áfram og/eða birta hana. Til dæmis á heimasíðum.
Á Framtíðarþingi um farsæla öldrun kom fram mikið magn gagna sem birtast öll í lokaskýrslunni. Nú þegar hefur borist ein beiðni um að nota heildargögnin í rannsóknartilgangi, í tengslum við meistararitgerð í öldrunarfræðum. Beiðnin vakti undirbúningshópinn til umhugsunar um hagnýtt gildi þess að sem flestir nemendur myndu fá tækifæri til að vinna með gögnin, til að varpa enn skýrara ljósi á farsæla öldrun.  Undirbúningshópurinn hvetur því til að gögnin séu nýtt enn frekar, til viðbótar við lokaskýrslu og miðlun á niðurstöðum sem aðstandendur þingsins standa fyrir.

Frekari upplýsingar eða nánari kynning á framtíðarþinginu  www.facebook.com/farsaeloldrun  

Pétur Magnússon, formaður Öldrunarráðs Íslands, Sími 841 1600

Hægt er að ná í loka skýrsluna hér