Endurrituð og breytt á aðalfundi 23. maí 2012

1.gr.

Aðilar sem láta sig málefni aldraðra varða mynda Öldrunarráð Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2.gr.

Markmið Öldrunarráðs er að bæta lífsgæði og stöðu aldraðra. Tilgangi sínum hyggst ráðið ná með því að :

a)      Stuðla að samræmdri grundvallarstefnu í málefnum aldraðra og framgangi hennar.
b)      Koma fram fyrir hönd aðila sinna eftir því sem við á.

c)       Standa að ráðstefnum og námskeiðum og beita sér fyrir almennri upplýsinga – og fræðslustarfsemi um málefni aldraðra.
d)      efla rannsóknir varðandi málefni aldraðra með starfsemi sérstaks rannsóknasjóðs, en um hann gildir sérstök skipulagsskrá.
e)      aðstoða aðila sína við skipulag verkefna og framkvæmd
f)       veita árlega viðurkenningu til einstaklings , stofnunar eða félagasamtaka fyrir framúrskarandi mál, starf eða verkefni í þágu málefnis aldraðra.
g)      annast samskipti við tengda aðila erlendis.

3.gr.

Aðilar að Öldrunarráði Íslands geta orðið :

  1. opinberir aðilar og aðrir þeir aðilar sem láta sig málefni aldraðra varða. 
  2. stofnanir sem vinna að öldrunarmálum og
  3. félög og samtök sem á einhvern hátt snerta málefni aldraðra.

Stjórn Öldrunarráðs Íslands afgreiðir aðildarumsóknir. 

4.gr.

Styrktarfélagar geta orðið einstaklingar og félög sem ekki falla undir ákvæði í 3. gr. Þeir eiga rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétti.

5.gr.

Árgjöld til ráðsins greiða aðilar í einhverjum eftirtalinna flokka:

a)      gjöld er veita rétt til þriggja fulltrúa með atkvæðisrétt á aðalfundi.
b)      gjöld er veita rétt til eins fulltrúa með atkvæðisrétt á aðalfundi.
c)       gjöld styrktarfélaga samkvæmt ákvörðun aðalfundar.

Aðilar að Öldrunarráði geta sent fleiri á aðalfund en þá sem atkvæðisrétt hafa.
Tillögur um árgjöld ásamt fjárhagsáætlun skal stjórn ráðsins leggja fyrir aðalfund.
Gjalddagi árgjalda er 10.júlí. Aðildarfélög sem skulda árgjöld tveggja ára falla út af aðildaskrá.

6.gr.

Reikningsár samtakanna er almanaksárið.

7.gr.

Aðalfund skal að jafnaði halda í maí ár hvert og fer hann með æðsta vald Öldrunaráðs Íslands.
Rétt til setu á aðalfundi eiga fulltrúar og þeir aðrir sem stjórnin býður, svo sem fyrrverandi stjórnarmenn.
Aðalfund skal boða skriflega með a.m.k. hálfs mánaðar fyrirvara og er hann löglegur sé löglega til hans boðað.
Dagsskrá aðalfundar:

  1. Nafnakall fulltrúa með atkvæðisrétt.
  2. Lögð fram skýrsla stjórnar og nefnda um starfsemi ráðsins ásamt endurskoðuðum reikningum þess.
  3. Skýrsla Rannsóknasjóðs lögð fram.
  4. Lögð fram tillaga stjórnar að fjárhagsáætlun næsta árs og aðildargjöldum.
  5. Lagabreytingar.
  6. Lagðar fram tillögur/ eða ályktanir er borist hafa.
  7. Kosning formanns, annarra stjórnarmanna og endurskoðenda.
  8. Önnur mál.

8.gr.

Aðalfundur kýs 9 manna stjórn Öldrunarráðs Íslands .
Kjörgengir eru þeir einir sem tilnefndir eru til setu á aðalfundi af aðilum Öldrunarráðs.
Kjörtímabil stjórnarmanna er 3 ár og er formaður kosinn sérstaklega. Stjórnin skiptir með sér verkum.
Endurkosning formanns og stjórnar er heimil í tvö skipti.
Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga og  einn til vara og skulu þeir kosnir til þriggja ára.

9.gr.

Hlutverk stjórnar Öldrunarráðs Íslands er að annast málefni  ráðsins milli aðalfunda. Stjórninni er heimilt að ráða starfsmann. Skylt er að kveðja til fundar ef 1/3 hluti félagsmanna óskar þess , sbr.5. gr. eða ef 2 stjórnarmenn æskja þess skriflega, enda sé fundarefni tilgreint.

10.gr.

Öldrunarráð hefur til ráðstöfunar  sjóð til eflingar rannsókna í Öldrunarmálum, Rannsóknarsjóð Öldrunarráðs Íslands. Rekstur sjóðsins er á ábyrgð stjórnar Öldrunarráðs sem leggur mat á styrkbeiðnir. Starfsemi sjóðsins er byggð á skipulagsskrá sem samþykkt var á aðalfundi Öldrunarráðs 15. október 1992 og verður henni einungis breytt á aðalfundi.

11.gr.

Lögum þessum verður einungis breytt á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn fyrir 1. apríl og skal hún senda þær með fundaboði. Til lagabreytinga þarf samþykkt 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi.

12.gr

Tillögu um að leggja Öldrunarráð niður er eingöngu hægt að leggja fyrir aðalfund og skal hún berast stjórn fyrir 1. febrúar. Verði tillagan samþykkt með ¾ hlutum atkvæða á aðalfundi , enda sitji a.m.k. ¾ hlutar atkvæðisbærra fulltrúa fundinn skal halda aukaaðalfund innan þriggja mánaða til endanlegrar ákvörðunar. Verði samþykkt að leggja Öldrunarráð niður með ¾ hlutum atkvæða á aukaaðalfundi , skal fundurinn ákveða hvernig skuli ráðstafa eignum Öldrunarráðs. Þá skal taka sérstaklega ákvörðun um það hver skuli taka að sér rekstur og úthlutun styrkja úr rannsóknarsjóði.