María Theodóra Jónsdóttir, fyrrum form. Félags áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma, FAAS

mariaÖldrunarráð Íslands (ÖÍ) veitir í dag Maríu Theodóru Jónsdóttur, fyrrverandi formanni Félags áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma, FAAS, viðurkenningu sína fyrir vel unnin og óeigingjörn störf í þágu aldraðra.
María Theodóra var formaður FAAS í 15 ár, frá 1995 til 2010. Hún var meðal stofnfélaga og sat í stjórn félagsins í mörg ár áður en hún tók við formennsku. Á formennskuárum hennar óx starfsemi félagsins mikið, að miklu leyti vegna atorku hennar og elju. Í störfum sínum fyrir félagið lagði María m.a. mikla áherslu á vægi mannauðs og kærleika í þjónustu við sjúklinga og aðstandendur.

Markmið Félags áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma er m.a. að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna, efla samvinnu og samheldni aðstandenda, m.a. með fræðslufundum og útgáfustarfsemi, og ekki síst með því að stuðla að auknum skilningi stjórnvalda á hverjum tíma, heilbrigðisstétta og almennings á þeim vandamálum sem þeir sem þjást vegna sjúkdómanna eiga við að etja. 

Skrifstofa og aðstaða Maríu sem formanns FAAS var heimili hennar, eða þar til 2009 er skrifstofan flutti í Hátún 10. María svaraði í síma félagsins, veitti ráðgjöf, bauð fólki heim til sín í viðtöl, hélt utan um sjálfboðaliða, sinnti sambandi félagsins við stjórnvöld, hélt utanum sölu minningakorta, var ritstjóri fréttablaðs FAAS og var afar ötull talsmaður. Öll þessi störf vann María í sjálfboðavinnu.
María beitti sér m.a. fyrir stofnun sérstakra dagþjálfununardeilda fyrir heilabilaða, sem að miklu starfa eftir hennar hugmyndafræði. Heilabilaðir þurfa sér dagþjálfun þar sem þarfir þeirra grundvallast af vitrænni og líkamlegri þjálfun, umvefjandi umhyggju og hlýju á deildum þar sem bæði heimilisfólki og starfsfólki líður eins og heima. Með aðgangi sjúklinga að dagþjálfunum lengist sá tími sem þeir geta búið á eingin heimilum og lífsgæði þeirra aukast, einnig léttir það undir með mökum og aðstandendum og hjálpar þeim við að takast á við aðsteðjandi vandamál.

FAAS rekur þrjár dagþjálfunardeildir í samvinnu við sveitarfélög og á daggjöldum frá ríkinu. Fyrst var Fríðuhús opnað, síðan bættust Drafnarhús og Maríuhús við. FAAS hefur undir stjórn Maríu hvatt önnur sveitarfélög til að opna dagþjálfanir fyrir heilabilaða og hafa slíkar tekið til starfa í Reykjanesbæ og á Selfossi, auk þess sem dagdeildir eru í Hliðarbæ, Roðasölum, Vitatorgi og á Eir.
María Theodóra Jónsdóttir er fædd. 28. apríl 1938. Hún vann í í 6 ár í Hlíðarbæ við virkniþjálfun aldraðra, aðallega handavinnu, söng ofl. Hún þekkir vel til Alzheimersjúkdómsins því móðir Maríu fékk sjúkdóminn og bjó hún lengst af á heimili Maríu. Þegar léttist um hóf María að starfa meira að félagsmálum innan FAAS, en síðar greindist eiginmaður hennar með sama sjúkdóm og bjó hún honum öruggt skjól á heimili þeirra svo lengi sem mögulegt var.
Það er stjórn Öldrunarráðs Íslands sannur heiður og ánægja að veita Maríu Theodóru Jónsdóttur viðurkenningu ráðsins á þessu ári.

Reykjavík 27. maí 2011.
F.h. ÖÍ, Pétur Magnússon, formaður