Ingibjörg Hjaltadóttir hjúkrunarfræðingur hlýtur viðurkenningu Öldrunarráðs Íslands

Ingibjörg Hjaltadóttir tekur við viðurkenningu Öldrunarráðs Íslands úr hendi formanns stjórnar, Péturs Magnússonar, forstjóra Hrafnistu.Öldrunarráð Íslands veitti í dag dr Ingibjörgu Hjaltadóttur hjúkrunarfræðingi viðurkenningu fyrir einstakt framlag í þágu aldraðra. Ingibjörg hefur unnið að rannsóknum á sviði öldrunarhjúkrunar og þverfaglegum rannsóknum á sviði öldrunarfræða og auk þess tekið þátt í starfi stýrinefndar um rannsóknir á mælitækjum RAI-staðla á vegum heilbrigðisráðuneytisins (nú velferðarráðuneyti) frá árinu 1993.

Í rannsóknum sínum hefur Ingibjörg m.a. skoðað lífsgæði aldraðra á hjúkrunarheimilum, mönnunarmódel í öldrunarhjúkrun, gæði í öldrunarhjúkrun, næringarástand aldraðara á sjúkrahúsi og meðferð með aðstoð dýra. Ingibjörg hefur tekið þátt í rannsóknum á RAI-mælitækjum (Resident Assessment Instrument) sem notaðir eru á hjúkrunarheimilum, öldrunarlækningadeildum, í líknarþjónustu og heimaþjónustu. Einnig hefur hún tekið þátt í norrænu rannsóknarsamstarfi með notkun þessara mælitækja. Rannsóknir Ingibjargar hafa margar vakið töluverða athygli og fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum.

Ingibjörg lauk BS prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1983 og MS prófi frá Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands árið 2001. Hún stundaði doktorsnám við heilbrigðisvísindadeild læknadeildar Háskólans í Lundi og varði þar doktorsverkefni sitt 27. janúar 2012. Doktorsverkefnið heitir Gæði umönnunar, þróun á heilsufari, færni og lifun á íslenskum hjúkrunarheimilum á árunum 1996-2009. Ingibjörg hefur lengst af starfað á Landspítalanum en var lektor við Hjúkrunarfræðideild HÍ frá 2003 til 2010. Hún starfar nú á lyflækningasviði Landspítala auk þess að sinna ýmsum sérverkefnum, meðal annars fyrir landlæknisembættið.

Viðurkenning Öldrunarráðs

Árlega veitir Öldrunarráð Íslands sérstaka viðurkenningu til einstaklings, stofnunar eða félagasamtaka sem þykja hafa unnið einstakt starf tengt málefnum aldraðra. Auglýst er eftir tilnefningum í fjölmiðlum og er öllum heimilt að senda inn tilnefningar. Að þessu sinni vor hátt í 10 aðilar tilnefndir, þar af sumir sem fengur fleiri en ein og fleiri en tvær tilnefningar. Eftir að hafa fjallað um tilnefningarnar, sem margar voru mjög áhugaverðar og komu sannarlega til greina, komst stjórn Öldrunarráðs Íslands að niðurstöðu.

Frekari upplýsingar veitir Pétur Magnússon, formaður Öldrunarráðs, í síma 841 1600.