IMG 2126Mánudaginn 18. maí kl. 16.30-20.30 var haldið Framtíðarþing um farsæla öldrun í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri. Þingið var samvinnuverkefni Öldrunarráðs Íslands, Akureyrarbæjar, Félags eldri borgara á Akureyri, Háskólans á Akureyri, Landsambands eldri borgara og Velferðarráðuneytisins. Stutt ávörp í upphafi þings fluttu Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri og Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar.

Þingið var með sama sniði og sambærilegt þing sem haldið var í Reykjavík í mars 2013. Þá var leitast við að skapa vettvang fyrir þá sem koma að öldrunarmálum, vilja stuðla að uppbyggilegri umræðu um málefni aldraðra og skiptast á skoðunum um það hvernig samfélag við viljum búa eldri kynslóðum landsins. Markmið framtíðarþingsins á Akureyri var að sama skapi að miðla upplýsingum og viðhorfum eldri borgara til stjórnvalda um það hvernig aldraðir sjá framtíðina fyrir sér og skapa leiðbeiningar til stjórnvalda hvernig aldraðir líta mál sín til framtíðar. Einnig að heyra sjónarmið og áherslur Akureyringa á þinginu og hvort áherslumunur sé t.d. á lífsviðhorfum milli landshluta.

Fundarfyrirkomulag byggði á sömu hugmyndafræði og notuð var á Þjóðfundunum 2009 og 2010. Unnið var á sjö 8-9 manna borðum og á hverju borði var þjálfaður borðstjóri en hans hlutverk var að sjá til þess að allir við borðið fengju jöfn tækifæri til að tjá sig og að tryggja virka hlustun þannig að öll sjónarmið kæmust að. Þátttakendur voru 56 talsins.

Hér má nálgast samantekt á niðurstöðum þingsins sem PDF skjal.