Jón Snædal heiðraður fyrir áratuga starf

jon snaedalJón Snædal, yfirlæknir öldrunarlækninga á Landakoti, heiðraður fyrir áratugalangt starf að öldrunarmálum og rannsóknir á heilabilun

Stjórn Öldrunarráðs Íslands veitti í liðinni viku dr. Jóni Snædal, yfirlækni öldrunarlækninga á Landakoti og forstöðumanni Minnismóttökunnar, sérstaka viðurkenningu fyrir áratugalangt starf að málefnum aldraðra og rannsóknir sínar á heilabilun.

Jón hefur í gegnum tíðina gert fjölda rannsókna sem tengjast öldrunarlækningum og heilabilun, sérstaklega varðandi Alzheimer, og er aðalhöfundur eða meðhöfundur að fjölmörgum fræðigreinum í íslenskum og erlendum tímaritun. Jón var forseti Alþjóðafélags lækna, World Medical Association, 2007-2008, fyrstur Íslendinga. Hann gegnir nú embætti forseta norrænu öldrunarfræðisamtakanna Nordisk Gerontologisk Forum (NGF).

Jón hefur verið mikil frumkvöðull þegar kemur að þekkingu og þjónustu á sviði heilabilunar hér á landi og hefur ævinlega lagt sig fram um að miðla af þekkingu sinni og vekja áhuga heilbrigðisstafsmanna á málefnum tengdum heilabilun. Má þar meðal annars nefna fræðsluþing sem haldið er árlega um málefni sem tengjast heilabilun fyrir starfsfólk í öldrunarþjónustu. Ágóði af þeirri fræðslu sem þar fer fram er nýtt til að styrkja starfsfólk til ráðstefnuferða erlendis.

Dr. Jón Snædal fæddist árið 1950. Hann útskrifaðist frá læknadeild HÍ árið 1976 og stundaði framhaldsnám í öldrunarlækningum í Svíþjóð á árunum 1979-1984. Jón er yfirlæknir á Landakoti og forstöðumaður Minnismóttökunnar. Hann er auk þess í sérfræðingateymi Mentis Cura, greiningarmiðstöð sem hefur sérhæft sig í þróun á heilariti til greiningar á heilabilun og skilgreinist sem nýjung í heilsugæslu aldraðra hér á landi.

Reykjavík 28. maí 2013.