Marel hf. og Félag áhugafólks um íþróttir aldraðra hlutu viðurkenningu Öldrunarráðs Íslands fyrir fyrirmyndarstarf

- Anna Birna Jensdóttir kjörin nýr formaður ráðsins

Á aðalfundi Öldrunarráðs Íslands, sem haldinn var föstudaginn 29. apríl, var Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Sóltúns í Reykjavík, kjörin formaður ráðsins. Tók hún við af Pétri Magnússyni, forstjóra Hrafnistu sem gegnt hefur stöðu formanns undanfarin sex ár.

Auk venjulegra aðalfundarstarfa voru tvær viðurkenningar veittar:

  • Félag áhugafólks um íþróttir aldraðra hlutu viðurkenningu Öldrunarráðs fyrir einstak og ósérhlífið starf í þágu aldraðra. Í 30 ára sögu félagsins hefur ávallt verið lögð áhersla á að aldrei sé of seint að hefja reglulega líkamsrækt sem stuðlar að góðri heilsu og bættum lífsgæðum einstaklinga og ekki síður til farsældar fyrir samfélagið í heild.  Félagið hefur frá upphafi staðið fyrir árangursríku fræðslu- og kynningarstarfi víða um land auk þess að leggja sitt af mörkum til fjölmargra íþróttamóta um land allt þar sem m.a. er keppt í pútti, boccia og öðrum vinsælum íþróttagreinum aldraðra. Það var Ungmennafélag Íslands, UMFÍ, sem tilnefndi Félag áhugafólks um íþróttir aldraðra með bréfi til Öldrunarráðs, en UMFÍ hefur um árabil átt farsælt samstarf við félagið vegna mótshalds víða um land.
  • Marel hf. er eitt af framsæknustu fyrirtækjum landsins og í fararbroddi á fjölmörgum sviðum eins og viðurkenningar sem fyrirtækinu hefur hlotnast á liðnum árum bera vitni um. Á nýafstöðnum aðalfundi Öldrunarráðs var í fyrsta sinn veitt viðurkenning fyrir fyrirmyndartilhögun varðandi starfslok eldri starfsmanna fyrirtækis. Hjá Marel hefst ferlið við 65 ára aldur með því að starfsmanni er kynnt starfslokastefna fyrirtækisins í starfsmannasamtali. Þá er greint frá  möguleika á minnkandi starfshlutfalli og fræðslu og ráðgjöf sem er í boði til að undirbúa starfslok. Að öllu jöfnu er gert ráð fyrir að starfsmenn Marel láti af störfum þegar þeir verða 67 ára. Óski starfsmaður eftir því að fá að starfa lengur getur hann með samkomulagi við yfirmann sinn starfað áfram til sjötugs.

Fréttatilkynning frá Öldrunarráði Íslands 29. apríl 2016.

Nánari upplýsingar veitir Pétur Magnússon í síma 841 1600.

Hér má sjá myndir frá afhendingunni

nr1  nr2  nr3   nr4   nr5   nr6   nr7   nr8   nr9   nr10